The Sounds of the Sounds of Science

Crazy like a fox - Hungry like a wolf

sunnudagur, ágúst 01, 2004

Jæja, þetta tölvuvesen er barasta orðið rídíkjúlús.

Allavegana þá langar mig mikið til þess að skella inn einni minningu sem poppaði inn í hausinn á mér seint í gærkveldi.

Fyrir nokkrum árum leigði ég íbúð með 3 strákum sem allir áttu rætur sínar að rekja til S-Ameríku. Tveir þeirra voru nú orðnir meiri Bretar en nokkurtíma latínóar en sá þriðji var greinilega alveg nýkominn frá Perú og ekki alveg að skilja okkur hina. Hann fékk stundum "frænku´" sína í heimsókn sem gisti síðan í herberginu hans og virtist stynja mikið í svefni. Hún eldaði líka handa honum hefðbundinn perúanskan mat eins og naggrísi og baunakássu. En þessi minning er ekkert um hann. Hann á eiginlega skilið alveg sér bloggfærslu af því að hann var svo ask.. spes. Minningin er eiginlega um það þegar ég hætti að leigja með þeim en kom síðan aftur í heimsókn og eldaði fyrir þá nokkurskonar síðbúna kveðjumáltíð.

Það var strax búið að fá nýjan leigjanda í staðinn fyrir mig. Rúben frá Kúbu var mættur á svæðið. Hann var stór náungi og mikill um sig. Hann var líka svakalega loðinn þannig að dökk hár skriðu upp frá hálsmálinu og tendust hársverðinum þannig að ekki sást hvar bakhárin enduðu og hárið sjálft byrjaði. Hendurnar voru það loðnar að ég hafði hann grunaðan um að raka á sér lófana. Hann fékk fljótlega viðurnefnið El Oso (Björninn) og virtist líka það vel.

Eftir ofnbakaðan pastarétt og nokkrar fernur af rauðvíni og sangría (fernur af víni eru æðislegar) þá dró Björninn fram tvær líters flöskur af rommi og bónus kóla í bland. Hann helti í glös fyrir alla matargestina og blandaði sirka 30/70 kókinu í vil. Næsta umferð var áfengismagnið orðið 70/30 og í þriðju umferð var rétt hellt kóki í glasið til að ná veikum te-lit.

Björninn var í essinu sínu. Dró fram kúbverska vindla og gaf okkur að smakka (man en eftir bragðinu og tegundinni; Romeo Y Juliet). Síðan sagði hann okkur frá því að hann hefði lært tölvunarfræði í Rússlandi áður en hann kom til okkar. Eftir smá hummm og ha þá kom í ljós að hann hafði einnig lagt stund á ballet og jafnvel tekið þátt í uppfærslu á Rauðhettu og úlfinum þar sem hann lék Rauðhettu. Við veltumst um af hlátri. Björninn útskýrði fyrir okkur að hann hefði bætt þó nokkuð á sig síðan hann lék þetta hlutverk. Hann sagði okkur frá fjölskyldunni sinni á Kúbu og bróður sínum sem hafði flúið til Kanada. Hann kláraði síðan seinustu dropana úr seinni romm-flöskunni og sagðist vilja dansa.

Við meikuðum ekki alveg að dansa við hann í íbúðinni þannig að það var ákveðið að skella sér niðrí bæ. Svo skemmtilega vildi til að það var blúshátíð í bænum ákkúrat þessa vikuna. Við niðrá torg að fylgjast með rétt eins og flestir bæjarbúar. Stór og mikil blúskona með ýktan Texashreim söng helvíti fjörugan blús (ég sem hélt að blús væri barasta tregi). Við í stuði skelltum okkur fyrir framan sviðið og skókum alla skanka. Jíhaaa! Allur bærinn horfði á fullu útlendingana gera sig af fífli. Enginn nógu drukkinn til að taka þátt í þessu með okkur. Eftir nokkur lög og sveittan dans slúttaði prógrammið. Við skelltum okkur baksviðs til að þakka fyrir gott geim. Texaskonan þakkaði fyrir á móti og sagði með þykka suðurríkjahreimnum "you gave me power, man!".

Ég man ekki alveg hvað gerðist eftir það en ég veit að daginn eftir var Björninn með einn mesta þynnkumóral sem ég hef orðið vitni af.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home