The Sounds of the Sounds of Science

Crazy like a fox - Hungry like a wolf

miðvikudagur, maí 12, 2004

Afi var hlýr og innilegur, lífsglaður grallari, heimshornaflakkari og lífskúnstner með meiru. Nú þegar hann er farinn er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að hann hafi verið orðinn eins aldraður og fæðingarárið segir til um. Afi var alltaf á ferðinni og með eitthvað fyrir stafni. Hann og amma höfðu ferðast saman heimshorna á milli og um landið þvert og endilangt. Afi var alltaf að plana næstu stórframkvæmdir. Ef afi hefði náð að framkvæma allt það sem honum hafði dottið í hug fyrir sumarbústaðinn þeirra ömmu væri vafalaust hægt að reka hann sem fjögurra stjörnu hótel. Sem betur fer fékk framkvæmdargleðin hjá honum líka útrás á öðrum vettvöngum og það eru eflaust margir vinir og vandamenn sem eiga eitthvað heima hjá sér sem afi hjálpaði til við að koma saman.
Það var alltaf gaman að hitta ömmu og afa og fá kanski að heyra sögu af heimshornaflakki, þeim tíma sem þau ráku gistiheimili, þegar þau kynntust á unglingsárunum eða þegar afi var að reisa byggingar út um allar trissur. Afi hafði þann eiginleika að allir sem kynntust honum fundu hversu hlýr og innilegur hann var. Hann átti auðvelt með að tala við hvern sem var og fá viðkomandi til þess að finnast hann vera vel metinn í bókum afa.
Við eigum eftir að sakna afa og hugsa hlýlega til allra samverustundanna sem við erum óendanlega þakklátir fyrir hafa átt með honum.


Í minni mínu varðveitist mynd af þér
Þar sem þú brosir
blíðar en sólin
faðmar mig
með hlýjum örmum
Ég get vart varist tárunum
þegar ég veit
að þetta er aðeins
Minning

Og þar sem minning mín
rennur í eina mynd
þar sem birta þín og hlýja
verma hjartarætur mínar
brosi ég í gegnum tárin
Því minning mín um þig
gafstu mér til eigna
um ókomna framtíð
þar til ég hitti þig næst
í minningunni
(Kristinn Ágúst Kristinsson)